Almenn ráð við hegðunarvanda

Ýmsir umhverfisþættir geta kallað fram og viðhaldið óviðeigandi hegðun barns. Því skiptir máli að velta fyrir sér hverjir þessir þættir geta mögulega verið áður en inngrip er búið til. Gott er að hugsa út í: Hvað virðist oftast hafa áhrif á hegðun barnsins? Er athygli frá kennurum og/eða nemendum að viðhalda hegðuninni? Kemst barnið undan verkefnum, fyrirmælum eða öðru í kjölfar hegðunarinnar? Virðist barnið hafa ánægju af hegðuninni sjálfri, án utanaðkomandi áhrifa? Eru allir þessir þættir að hafa áhrif á hegðun barnsins? Þegar umhverfisþáttur stjórnar hegðun með því að auka líkur á að hún eigi sér stað eða viðheldur henni þá er oft talað um að hegðunin hafi þann tilgang að nálgast þessa umhverfisþætti.

Eftirfarandi ráð eiga almennt við um hvers kyns hegðunarvanda. Til þess að fá ítarlegri leiðbeiningar og fleiri ráð má kaupa aðgang að vefnum hér.

Skapa gott samband við nemandann

Það er grundvallaratriði til að halda uppi aga að samband þitt við nemendur sé ánægjulegt og gott. Ef þú finnur fyrir pirringi gagnvart einhverjum nemanda er gott ráð að eyða nokkrum mínútum á dag í að kynnast honum með því að gera eitthvað með nemandanum sem hann hefur gaman af.

Raunhæfar væntingar

Það er mikilvægt að væntingar til barnsins séu raunhæfar og sanngjarnar.

Skýrar reglur

Gott er að setja reglur upp á skýran hátt, hafa þær í myndrænu formi ef hægt er og hafa upp á vegg. Skýrar reglur taka fram hvaða afleiðingar fylgja því að fylgja reglunni og að fylgja ekki reglunni.

Gefa skýr og ákveðin fyrirmæli

Mikilvægt er að gefa skýr og ákveðin fyrirmæli um hvað barnið má gera og hvað ekki og útskýra hverjar séu afleiðingar af viðeigandi og óviðeigandi hegðun. Þegar gefa skal öllum hópnum fyrirmæli er gott að hafa þau stutt og einföld, skipta þeim til dæmis upp í smærri einingar eða skref ef þau eru flókin.

Fylgja fyrirmælum eftir

Það skiptir máli að fylgja fyrirmælum vel eftir. Þegar bekknum eru t.d. gefin fyrirmæli þarf að fara fljótlega til barna sem ekki eru byrjuð  og og stýra þeim í rétta átt.

Hjálpa nemendum að öðlast sjálfsstjórn

Mikilvægt er að hjálpa nemendum að öðlast sjálfsstjórn, en til þess getur reynst vel að nota ömmuregluna og kenna nemendum sjálfsleiðbeiningu. Einnig má útbúa hegðunarsamning.

Hafa samband við foreldra

Hafðu samband við foreldra barnsins og láttu þá vita af vandamálinu og hvernig ætlunin er að leysa það. Til að auka líkurnar á samvinnu foreldra er mikilvægt að sambandið við þá sé gott.

Samræmi í viðbrögðum í skóla og heima

Best er að kennarar og foreldrar séu samtaka í uppeldisaðferðum. Það er nauðsynlegt að láta foreldra vita þegar barnið hefur staðið sig vel til að þeir geti hrósað og mögulega verðlaunað á annan hátt fyrir góða frammistöðu. Til dæmis væri hægt að hafa samskiptabók sem ávallt er í töskunni. Búa má til samantekt á minnisblað af ráðinu sem var valið af heimsíðunni fyrir foreldrana til að auka líkurnar á samræmi í viðbrögðum.