Um Ráðavefinn

Á Ráðavefnum má finna ráð við ýmsum vanda sem leik- og grunnskóla starfsfólk getur þurft að takast á við. Ráðgjöfin er ávallt í samræmi við rannsóknir á sálfræði barna, hegðunar og náms. Ráðin eru því öll raunprófuð og henta fyrir kennara og annað fagfólk sem vinnur náið með börnum. Tilgangurinn er að draga úr hegðunarvandamálum í skólaumhverfi og bæta þannig líðan nemenda og starfsfólks. Betra skólaumhverfi stuðlar að bættum námsárangri og félagsþroska nemenda.

Hluti ráðanna er sérhæfður á þann hátt að þau fara eftir tilgangi hegðunar. Þessi ráð krefjast þess að hegðunin sem veldur vanda sé skráð niður. Þetta er vegna þess að ólíkir umhverfisþættir geta kallað fram og viðhaldið óæskilegri hegðun og skiptir því máli að velta fyrir sér hverjir þessir þættir geta mögulega verið áður en inngrip á sér stað.

Mælt er með því að þeir sem leita sér ráða á þessari síðu vegna óæskilegrar hegðunar myndi sér kenningu um tilgang hegðunarinnar út frá skráningu hennar. Jafnframt er mælt með því að þeir nýti sér ráð sem hafa verið útbúin út frá mismunandi tilgangi hegðunar.

Verkefnið Ráðavefurinn var að mestu styrkt af Reykjavíkurborg en einnig lögðu Akureyrarkaupstaður og Reykhólahreppur okkur lið. Bára Kolbrún Gylfadóttir sálfræðingur og atferlisfræðingur, samdi ráðin í upphafi en Inga Dröfn Wessmann MS í sálfræði og sálfræðingur vann mikla og mikilvæga undirbúningsvinnu. Vin Þorsteinsdóttir sálfræðingur stjórnaði verkefninu í mörg ár, ritstýrði og las yfir ráðin. Sálfræðingar hjá Þroska- og hegðunarstöð (í dag „Geðheilsumiðstöð”) lásu einnig yfir sum ráðin. Sigrún Vilborg Heimisdóttir sálfræðingur aðstoðaði við að undirbúa verkefnið og koma því af stað.

Ingunn Eyjólfsdóttir, MS í sálfræði, vann við uppsetningu vefsins og var það hluti af meistaraverkefni hennar við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Hún gerði 60 eininga lokaverkefni þar sem árangur vefsins var metinn með þátttöku fjögurra grunnskólakennara. Niðurstöður bentu til þess að vefurinn nýttist til að takast á við truflandi hegðun nemenda og kennarar höfðu jákvæða og góða upplifun af notkun vefsins. Hún staðlaði útlit síðunnar árið 2017 og bætti við nokkrum ráðum.

Júlía Hafþórsdóttir, MS í sálfræði, fór svo yfir textann á síðunni árið 2021 og aðlagaði ráðin að leikskólaumhverfinu. Einnig var það hluti af hennar meistaraverkefni að athuga hvort ráðavefurinn gagnist kennurum og öðru starfsfólki í leikskóla. Niðurstöður þeirrar rannsóknar að eftir að kennarar fengu aðgang að vefnum jukust tilfelli réttra viðbragða hjá kennurum og óæskileg hegðun hjá nemendum minnkaði.

Dr. Zuilma Gabríela Sigurðardóttir, prófessor í atferlisgreiningu var ómetanlegur stuðningur í öllu ferlinu og án hennar hefði verkefnið ekki orðið að veruleika. Hún hefur í dag umsjón með áframhaldandi þróun og rannsóknum á árangri Ráðavefsins og sér um rekstur þess innan Rannsóknastofu í atferlisgreiningu. Rannsóknarsjóður HÍ veitti styrk á árinu 2015 til rannsókna á árangri vefsins og 2023 fékk Ráðavefurinn styrk HÍ sem er ætlað til að styðja við virka þátttöku akademísks starfsfólks í samfélaginu í krafti rannsókna þess og sérþekkingar og veita þeim sem leggja sig fram við að miðla rannsóknum sínum til almennings eða nýta þær til almannaheilla.